Hvenær á að klippa tré og runna?

Sumarið er hinn eðlilegi vaxtartími trjáa svo að barkarsár eftir greinaskerðingar lokast og læknast fljótt. Frá þeim sjónarhóli mætti segja að betra sé að klippa trjágróður um mitt sumar.

En á sumrin, þegar laufskrúðið hylur krónur og greinar, er erfitt að sjá fyrir hvar best er að beita verkfærunum og þar að auki þyngir laufið greinarnar svo að meiri hætta er á brotum. Þess vegna er best að takmarka sumarklippingar við létta snyrtingu og formklippingu á runnum og limgerðum.

Á veturna eru tré og runnar lauflaus, svo auðvelt er að sjá allar greinar, fyrirkomulag þeirra og form. Þetta er góður tími til að gera allar stærri hreinsanir í trjágróðrinum. Fjarlægja krosslægar greinar og saga niður víðilimgerði sem þurfa endurnýjun. 

Klipping lauftrjáa

Klippingar eru flestum garðtrjám nauðsynlegar til að þau þrífist sem best. Greinar sem eru dauðar, sjúkar eða skemmdar valda trénu vanþrifum og á að fjarlægja. Einnig geta ytri aðstæður trjáa valdið því að vöxtur og útlit verður ekki í samræmi við væntingar eigandans, t.d. vegna lítils rótarrýmis, skugga eða samkeppni við annan gróður. Því getur reynst nauðsynlegt að lagfæra vöxtinn á ýmsan hátt. Tilgangur klippinga á stofntrjám er að hjálpa trénu að þroskast og vaxa í samræmi við upphaflegan tilgang og óskir eigandans.

Svokölluðum blæðurum, eins og birki, hegg og hlyn, byrjar að blæða í byrjun apríl og blæðir fram í lok júní. Minniháttar klipping á blæðurum kemur ekki að sök á þessu tímabili. Eftir laufgun frá lok júní og fram í lok júlí er plantan í mestum vexti. Sá tími þykir mjög ákjósanlegur til stærri klippinga því þá er tréð í bestri aðstöðu til að bregðast við klippingunni og loka á sárið

Klipping limgerðis og runna.

Tilgangur formklippinga er að ná fram og viðhalda ákveðinni lögun, hæð, breidd og þéttleika. Til að koma upp fallegu og þéttu limgerði getur þurft að klippa það nokkrum sinnum á ári.

Þegar klippt er reglulega, t.d. 2-4 sinnum á ári, haldast greinarnar grennri og þéttleikinn verður meiri. Sáraflötur greina verður einnig minni sem dregur úr hættu á sjúkdómum, s.s. sveppasýkingum. Mikilvægt er að byrja formun og þéttingu strax
eftir gróðursetningu til að ná fram jöfnum vexti frá rótarhálsi til topps. Best er að ákveða strax í upphafi hver endanleg hæð og breidd limgerðis á að verða. Sjálft form limgerðis skiptir miklu máli varðandi þéttleika og styrk gagnvart snjóálagi en er einnig háð smekk hvers og eins.

Svokölluð A klipping, þar sem limgerði er breiðast neðst við jörðu en mjókkar inn að ofan er að öllu jöfnu talin best m.t.t. þéttingu hliðargreina. Formið tryggir að sól nái að skína á neðstu greinar runnans. Limgerði með A formi hrindir einnig betur frá sér snjó og þolir meira álag, t.d. vindálag.

Besti tíminn til limgerðisklippinga er síðla vetrar og fram á vor þegar greinabygging runnans er sýnileg. Sumartíminn er einnig heppilegur til klippinga allt fram í ágúst. Heppilegt er að vetrar- eða vorklippingu sé fylgt eftir 2-4 sinnum yfir sumartímann, allt eftir vaxtarhraða viðkomandi tegundar.

Limgerði sem er í formun þarf að klippa jafnvel þótt endanlegri hæð og breidd hafi ekki verið náð. Það er gert til að þétta greinabyggingu og tryggja að limgerðið verði ekki gisið að neðanverðu. Hliðargreinar hraðvaxta víðitegunda í formun er best að stytta þannig að u.þ.b. 10-15 cm af vexti fyrra árs verði eftir. Ekki er nauðsynlegt að stytta toppinn eins mikið og aðrar greinar, frekar að halda honum jöfnum.

Trjátegundir með svo kölluðum leiðandi stofni, s.s. birki, lerki og greni eru ekki klipptar á hæðina fyrr en óskaðri hæð er náð.

Best er að staðsetja klippurnar í ákveðna hæð útfrá líkama þess sem klippir, t.d. axlarhæð, brjósthæð o.s.frv. Síðan reynir sá sem klippir að ”læsa” höndunum í þeirri hæð sem ákveðin var, ganga jöfnum skrefum meðfram limgerðinu og klippa beint. Þetta getur reynst erfitt þegar klippt er á ójöfnu undirlagi en æfingin skapar meistarann.

Eftir að toppur limgerðis hefur verið klipptur er gott að ganga meðfram efri hluta limgerðis og jafna hliðarhalla / fláa til að ná fram áðurnefndu A formi (sé það hið óskaða form).
Að lokum er mikilvægt yfirfara klippinguna og snyrta með handklippum greinar sem eru illa klipptar, t.d. í þeim tilfellum þegar greinar eru tættar eða hafa ekki klippst í sundur. Einnig er gott að hreinsa burt allar greinar sem fallið hafa inn í limgerðið eða liggja ofan á greinum.

Samkvæmt ofangreindri lýsingu er æskilegt að framkvæma klippinguna í þessari röð:

1. Meta þörf á klippingu limgerðisins.
2. Klippa hliðargreinar í beinni línu. 
3. Klippa toppa limgerðis, jafnt og beint.
4. Jafna hliðarhalla til að ná fram réttu formi. 
5. Klippa greinaenda ef þurfa þykir og fjarlægja afklippur.

Hvenær á að klippa?

  • Á veturna eru tré og runnar lauflaus.
  • Auðvelt er að sjá allar greinar, fyrirkomulag þeirra og form.
  • Þess vegna eru veturnir (t.d. mars) góður tími til  klippa.

Í Áhaldaleigu Húasmiðjunnar færðu:

  • Rafmagnshekkklippur
  • Bensínhekkklippur
  • Keðjusagir