Samkeppnisréttaráætlun Húsasmiðjunnar ehf.

Samþykkt á stjórnarfundi þann 31.10 2014

Stjórn Húsasmiðjunnar ehf. hefur ákveðið að innleiða sérstaka samkeppnisréttaráætlun innan félagsins.

Felst hún í fræðslu til starfsmanna, innra eftirliti, skipun regluvarðar og annarra aðgerða sem hafa það að markmiði að starfsmenn Húsasmiðjunnar  séu ávallt vel meðvitaðir um samkeppnisumhverfi og samkeppnislög á hverjum tíma, þmt. bannreglur samkeppnislaga og að þeir verði meðvitaðir um hegðun á samkeppnismarkaði með það að markmiði að hún verði í samræmi við lög og reglur um samkeppnismál..

Stjórn félagsins mun móta og marka samkeppnisstefnu félagsins.  Var samkeppnisstefna félagsins samþykkt á fundi stjórnar þann 7. júlí 2014.  Munu allir starfsmenn félagsins upplýstir um samkeppnisstefnu þess og skal hún vera aðgengileg hverju sinni á innri vef.   Þá munu  lykilstarfsmenn félagsins  staðfesta og samþykkja að undirgangast stefnu félagsins með sérstakri skriflegri yfirlýsingu.

Samkeppnisréttaráætlun Húsasmiðjunnar byggist á ákveðnum grunngildum sem koma fram í skjali þessu.  

 Samþykkt samkeppnisstefna félagsins er hluti samkeppnisréttaráætlunar.

 

  • Samkeppnisstefna Húsasmiðjunnar

 

Samþykkt stjórnar Húsasmiðjunnar ehf.

Samkeppnisreglur eru hluti af starfs- og lagaumhverfi Húsasmiðjunnar sem umfangsmikils verslunar- og innflutningsfyrirtækis á samkeppnismarkaði. Samkeppnisreglur gegna mikilvægu hlutverki á frjálsum markaði til að tryggja neytendum og þjóðfélaginu í heild ábatann af virkri samkeppni. Húsasmiðjunni er í mun að starfsemi fyrirtækisins samræmist að öllu leyti samkeppnisreglum og að ákvarðanir, samningar og aðgerðir fyrirtækisins á markaði brjóti ekki á neinn hátt gegn samkeppnislögum enda er Húsasmiðjan sannfærð um að með heiðarlegri samkeppni sé hagur viðskiptavina best tryggður.

Félagið og starfsmenn þess skulu sérstaklega gæta þess að eiga ekki í neinum samskiptum við keppinauta, hvorki skriflega, rafrænt eða munnlega sem geta leitt til eða miða að því að: 

  • samræma, jafna eða stýra verði, lánaskilmálum, kaupaukum eða afsláttum,
  • skipta með sér viðskiptum, mörkuðum, viðskiptavinum eða viðskiptasvæðum,
  • viðskiptabanni (boycott) gagnvart tilteknum viðskiptavinum eða birgjum,
  • takmarka innflutning, sölu eða framleiðslu á vöru eða þjónustu. 

 

Félagið skal gæta að  því að það  beiti ekki viðskiptaaðferðum sem gætu falið í sér brot á samkeppnislögum vegna markaðsráðandi stöðu. 

Stjórn Húsasmiðjunnar hefur ákveðið að innan fyrirtækisins skuli starfrækt sérstakt innra samkeppniseftirlit með það að markmiði að tryggja að Húsasmiðjan starfi að öllu leyti á forsendum heiðarlegrar samkeppni og vinni í hvívetna í samræmi við framangreinda stefnu og samkeppnisreglur að öðru leyti. 

Til að tryggja virkni innra samkeppniseftirlits felur stjórn Húsasmiðjunnar tileknum starfsmanni, regluverði samkeppnismála, að framkvæma innra samkeppniseftirlit. Regluvörður samkeppnismála og forstjóri skulu skipuleggja eftirlitskerfið. Regluvörður samkeppnismála verður aðeins leystur undan störfum af stjórn Húsasmiðjunnar. 

Samþykkt þessi verður bókuð í fundargerðarbók Húsasmiðjunnar.

Þannig samþykkt á stjórnarfundi Húsamiðjunnar hinn 7. júlí 2014