Húsasmiðjan hlýtur jafnlaunavottun, fyrst fyrirtækja á byggingavörumarkaði

Húsasmiðjan, hefur hlotið jafnlaunavottun og heimild til að nota jafnlaunamerki velferðaráðuneytisins, fyrst fyrirtækja á íslenska byggingavörumarkaðnum.

Jafnlaunavottunin var unnin eftir jafnlaunastaðli Staðlaráðs Íslands, ÍST85:2012. Það var vottunarfyrirtækið BSI sem framkvæmdi vottunarúttektina og Jafnréttisstofa hefur heimilað Húsasmiðjunni að nota jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins

Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Jafnlaunavottun var lögfest í júní 2017 með breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

“Það er okkur ánægja að vera fyrsta fyrirtækið á íslenska byggingavörumarkaðnum sem hlýtur jafnlaunavottun og vera meðal rúmlega 40 fyrstu fyrirtækjanna í einkaeigu á Íslandi sem hljóta slíka vottun. Jafnlaunakerfið er gagnlegt hjálpartæki og hluti af því að skapa jákvætt vinnuumhverfi. Í jafnlaunavottun felast jafnframt jákvæð skilaboð til viðskiptavina okkar og staðfesting á því að við rekum framsækna mannauðsstefnu sem stuðlar að jafnrétti,” segir Árni Stefánsson forstjóri Húsasmiðjunnar.

Það skiptir miklu máli að allir sitji við sama borð þegar kemur að launaákvörðunum og er jafnlaunakerfi ætlað að tryggja að starfsfólki sem vinnur sömu eða jafnverðmæt störf sé ekki mismunað í launum.

„Við berum jafnlaunamerki velferðaráðuneytisins stolt. Það er mikilvægt fyrir starfsfólk Húsasmiðjunnar að vita að til staðar sé stjórnkerfi sem tryggi að launaákvarðanir byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér mismunun vegna kyns eða annara ómálefnalegra þátta,“ segir Edda Björk Kristjánsdóttir, mannauðsstjóri Húsasmiðjunnar.

Nánari upplýsingar, Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar arni@husa.is, sími 525-3000