Vinalilja

Snotur og sígræn laukjurt sem hingað er kominn frá austanverðum
hluta Suður-Afríku þar sem hún finnst við og í þurrum árfarvegi.
Harðgerð og auðveld inniplanta sem þolir að standa í beinni sól eða
hálfskugga og þarf litla vökvun.

Blöðin upprétt, sverðlaga og safarík, fjórir til fimmtán sentímetrar að
lengd og einn til tveir á breidd, og vaxa upp af litlum dropalaga
laukum sem standa nokkrir saman um 1/3 upp úr moldinni. Laufið
fallega grá- eða silfurgrænt í grunninn og með dökkgrænni skellum á
efra borði en grænt eða rauðleitt á því neðra sem gefur plöntunni
sérkennilegt útlit. Blómin græn eða bleik smáar bjöllur og nokkur
saman á stuttum blómstilk.

Þrífst best í vel sandblendinni og næringarríkri pottamold með góðu
frárennsli. Moldin má þorna milli vökvanna og gott að vökva með
daufri áburðarblöndu einu sinni í mánuði yfir vaxtartímann. Þolir
nokkurn kulda yfir vetrartímann en ekki að frjósa.

Á latínu kallast planta Ledebouria socialis og er af spergilsætt.
Tegundir af ættkvíslinni eru fremur fágætar í ræktum og vinalilja sú
langvinsælasta.

Ættkvíslarheitið Ledebouria er til heiðurs þýska grasafræðinginum
Carl Friedrich von Ledebour, upp 1785–1851, tók saman og gaf út
fyrstu flóru Rússlands. Tegundarheitið socialis vísar til þess að
laukarnir vaxa í hnapp.

Plantan er eitruð fyrir ketti.

- Vilmundur Hansen.