Þokkasverð er fíngerð útgáfa af indíánafjöður

Sem áhugamanni um pottaplöntur glenni ég alltaf upp augun þegar ég sé nýja
tegund eða nýjan blending af slíkri plöntu. Nýverið rakst ég á eina slíka í
Blómavali. Plantan sem um ræðir kallast á latínu Sansevieria hybrid panthea og
er eins konar lágvaxinn og fíngerðari útgáfa af indíánafjöður en eins og heitið,
hybrid, segir ræktunarblendingur tveggja Sansevieria-tegundum.

Þeir sem til þekkja vita að á markaði eru fjöldinn allur af Sansevierur sem á
íslensku kallast meðal annars keisarasverð, snákasverð og indíánafjöður.

Þokkasverð er sígræn planta með uppréttum ílöngum og sverðlaga blöðum, með
grænum og fölgulum þverrákum, sem vaxa þétt saman og verða um 40
sentímetra löng.

Uppruni Sanseviera er suðvesturhreppum Afríku þar sem þær þrífast í sterki sól
og fá sjaldan regn. Þetta eru því upplagðar plöntur í suðurglugga og tilvaldar
fyrir fólk sem er latt við að vökva. Hefðbundin, sendin og eilítið kalkblönduð
pottamold hentar þeim vel og gott er að vökva með vægri áburðalausn annað
slagið. Þrífst best í þröngum potti. Ótrúlega harðgerðar og auðveldar plöntur í
ræktum og nánast ódrepandi sé þær ekki vökvaðar of mikið.

Ættkvíslarheitið Sansevieria til heiðurs ítalska prinsinum af Sansevero,
Raimondo di Sangro, uppi 1710 til 1771. Sangro var áhugamaður um garðyrkju
og fjarmagnaði rannsóknir í ræktun. Tegundarheitið panthea er úr grísku og
vísar til visku og þokka grískra gyðja og leyfi ég mér því að kalla blendinginn
þokkasverð á íslensku.

- Vilmundur Hansen