Einföld þumalfingursregla segir að taka eigi sumargræðlinga þegar
nývöxturinn er orðinn það stífur að hann bogni ekki án átaks en ekki svo trénaður að hann brotni.
Best er því að taka sumargræðlinga þegar lengdarvexti ársprotans er um það bil að ljúka.
Auðvelt er að fjölga mörgum skrautrunnum með sumargræðlingum en
mismunandi er milli tegunda hvenær þeir hætta að vaxa á sumrinu.
Eins og allar plöntur sem ræktaðar eru af græðlingum eru plöntur af
sumargræðlingum erfðafræðilega eins og móðurplantan og því mikilvægt að velja eingöngu hraustar og fallegar móðurplöntur. Sumargræðlingar ræta sig yfirleitt á 4 til 6 vikum.
Sumargræðlingar mega ekki þorna og því mikilvægt að setja þá strax í vatn, plastpoka eða blautan pappír eftir að þeir eru klipptir af móðurplöntunni og halda þeim rökum þar til þeim er stungið niður.
Áður en græðlingunum er stungið niður þarf að klippa þá, bæði ofan og
neðan við sitt hvort blaðparið, og hafa þá 8 til 15 sentímetra langa. Neðra blaðparið er síðan fjarlægt og það efra klippt í tvennt séu blöðin stór til að draga úr útgufun. Hafi greinar sem notaðar eru í græðlingaefni myndað blómvísi fyrir næsta ár skal klippa hann burt.
Gott er að stinga blaðlausa enda græðlingsins í rótarhvata til að örva
rætingu, áður en honum er stungið niður.
- Vilmundur Hansen.
