Ættkvísl með hátt í eitt þúsund tegundum og mörg hundruð afbrigðum og blendingum. Heimkynni þeirra eru í Evrópu, Norður-Ameríku, Ástralíu og Austur-Asíu.
Lauffellandi eða sígrænir, jarðlægir eða uppréttir runnar og tré sem geta náð 30 metra hæð í heimkynnum sínum. Sígrænar plöntur af ættkvíslinni kallast á íslensku lyngrósir eða rósatré en lauffellandi azalea á latínu.
Mikill breytileiki í blaðlögun og stærð en blöðin eru yfirleitt löng og heilrennd. Ræturnar þéttar og liggja grunnt. Blómstra snemma og blómin hvít, bleik, rauð og fjólublá, yfirleitt endastæð, stór og í hálfsveip. Þrífast best í röku loftslagi og hálfskugga og í moldarmiklum, rökum og örlítið súrum jarðvegi. Fjölgað með sumargræðlingum.
Viðkvæmar hér og þurfa gott vetrarskjól, sérstaklega fyrir vorsólinni, eigi þær að standa úti yfir veturinn.
Indíánar í Norður-Ameríku segja plöntuna fæla burt illa anda og vera verndandi. Í Nepal er duft og smyrsl úr henni notað gegn blóðkreppusótt og höfuðverk.
Lyngrósin er þjóðarblóm Nepals.
Dæmi um yrki í ræktun. 'Cunningham’s White'. Harðgerð og hávaxin. Blómin hvít með örlítið bleikum blæ. 'Scarlet Wonder'. Hálfur metri á hæð og með rauðum blómum. Harðgerð.
- Vilmundur Hansen.
