Liljur eru víða nefndar í goðsögum og á eyjunni Krít eru freskur, frá því um 1600 fyrir Krist, sem sýna ungar konur með lilju í sitt hvorri hendi ganga upp fjallshlíð með fórn til móður gyðjunnar.

Á Grikklandi tíðkast enn að gjafvaxta meyjar beri kórónu á höfði sem ofinn er úr liljum og hveitistráum á brúðkaupsdaginn sem tákn um sakleysi og frjósemi. Í öðrum samfélögum tákna liljur dauða og eru lagðar á leiði ungra barna. Liljur eru nefndar í Gamla testamentinu sem tákn um hreinleika og göfgi.

Upp úr 1960 voru eldliljur með vinsælustu garðplöntum á Íslandi. Sjálfur minnist ég þess að sem krakki að hafa verið narraður til að reka nefið inn í blóm eldliljunnar með þeim orðum að það væri svo góð lykt af þeim. Fyrir vikið uppskar ég einungis hlátur fullorna fólksins sem lék þannig á mig því þegar ég lyfti nefið frá blóminu aftur var það orðið vel rautt að frjóduftinu af fræflunum.

Ættkvíslin Liljur telur rétt innan við hundrað tegundir sem vaxa villtar á norðurhveli jarðar, flestar í Asíu og Norður Ameríku en nokkra tegundir eiga heimkynni í Evrópu. Liljur hafa verið lengi í ræktun og skipta ræktunarafbrigði eða yrki þúsundum.

Liljur verða yfirleitt um einn metri að hæð og þrátt fyrir að stöngullinn sé bæði stinnur og sterkur þurfa þær hávöxnustu stuðning nema þær standi á skjólgóðum stað. Þegar vel tekst til blómstra liljur stórum og litríkum blómum sem eru sannkölluð garðaprýði og stolt garðeigandans.

Liljur dafna best í frjósamri mold en margar þeirra þola illa ferskan búfjáráburð. Frárennsli þarf að vera gott, án þess þó að moldin þorni þar sem liljur þurfa jafnan raka, en laukarnir rotna auðveldlega ef þeir standa í bleytu. Liljulaukar eru líka viðkvæmir fyrir sveppasýkingum. Til þess að liljur nái góðri rótarfestu skal setja þá nokkuð djúpt, 10 til 15 sentímetra, einnig er gott að setja frjósama mómold undir laukinn til að flýta fyrir rætingu.

Harðgerðar liljur sem þola íslenska vetur eru yfirleitt íhaldssamar plöntur og líður best séu þær látnar standa lengi á sama stað.

Í sínu náttúrulega umhverfi vaxa liljur yfirleitt í nábýli við runna og laukurinn því vel geymdur í skuggsælum, rökum og svölum jarðveginum undir þeim.

Laukur liljunnar er viðkvæmur fyrir þurrki og þolir því illa geymslu í langan tíma. Séu laukar keyptir í gróðrarstöð að vori skal koma þeim í mold eins fljótt og hægt er og forrækta þá inni á svölum stað áður en þeir eru settir í ker eða út í garð. Sé laukurinn farinn að spíra þegar hann er settur niður skal ekki setja hann dýpra en svo að nefið á spírunni standi örlítið upp úr moldinni.

Gott er að setja lyng að annað létt skjól yfir liljurnar á haustin til að skýla þeim yfir veturinn.

- Vilmundur Hansen.