Burknar eru þeim kosti gæddir að þola skugga betur en margar plöntur
og því upplagt að hafa þá til að lífga upp á heimilið í skammdeginu.
Þeir eru líka blaðfallegir og fáanlegir með margvíslegri blaðgerð.
Leðurburkni eða leðurblað eins og plantan kallast á ensku er
einstaklega falleg tegund með glansandi, dökkgrænum og
margskiptum blöðum. Blöðin eru þríhyrningslaga, leðurlík viðkomu,
æðaber og verða ríflega 40 sentímetrar að lengd og tíu að breidd þar
sem þau eru breiðust en mjókka fram í blaðendann. Blaðstönglarnir er
sterkir og sveigjanlegir.
Í náttúrulegu umhverfi sínu vex leðurburkni sem skógarbotnsplanta og
kýs því bjartan stað en ekki beina sól og dafnar best í velframræstri
pottamold sem halda skal einlítið rakri en alls ekki gegnblautri. Efsta
lag moldarinnar má því þorna aðeins á milli vökvana.
Gott er gefa daufa áburðarblöndu einu sinni í mánuði yfir vaxtartínan
en sjaldnar á veturna og úða skal í kringum plöntuna með volgu vatni
annað slagið. Venjulegur stofuhiti hentar henni ágætlega og nóg er að
umpotta þegar ræturnar hafa fyllt upp í pottinn.
Auk þess að vera falleg stofuplanta eru blöð leðurburkna mikið notuð
í blómaskreytingar og sem afskorin blóm vasa með um tíu daga
líftíma.
Uppruni leðurburkna, sem kallast Arachniodes adiantiformis eða
Rumohra adiantiforis á latínu, er í Mið- og Suður-Ameríku en þeir
hafa einnig gert sig heimakomna í suðurlöndum Evrópu, Suður-Afríku
og víðar.
- Vilmundur Hansen.
