Snotur og fallega blómstrandi runni sem er upprunninn í Mongólíu,
norður og mið Kína og austur um Kóreuskaga til Japan. Finnst villt í
kjarrlendi í allt að 1500 metra hæð yfir sjávarmáli innan um
lauffellandi og sígræna runna.

Fremur fáséður runni en sannkallað garðaprýði þar sem plantan hefur
komið sér fyrir og stendur í fullum blóma.

Klukkurós er lauffellandi og í heimkynnum sínum nær plantan um
tveggja metra hæð en lægri hér á landi. Plantan þrífst ágætlega hér í
góðu skjóli og getur orðið þéttur runni um einn og hálfur metri á hæð
og breidd.

Greinarnar eru slútandi, blöðin gagnstæð og þéttstæð, fagurgræn eða
rauð. Blómin stór, lúðurlaga og laða að sér býflugur, ljósbleik eða
dökkrauð eftir yrkjum. Kýs sól ríkan stað og rakan en vel framræsta
jarðveg.

Yrkið 'Alexandra' sem kallast roðaklukkurós og er fáanlegt í
Blómavali er með rauð- eða bronsleitum blöðum og stórum
fagurrauðum blómum.

Plantan blómstrar á annars árs sprotum og því þarf að snyrta hana
fljótlega eftir blómgum en ekki á vorin.

Klukkurós, Weigela florida, er af ætt geitblöðunga og ættingi toppa.
Ættkvíslarheitið Weigela er til heiðurs þýska grasa- og
lyfjafræðinginum Christian Ehrenfried Weigel, upp 1748-1831, og
tegundarheitið florida vísar til þess að hún sé blómviljug.