Marga eru eflaust farnir að hlakka til vorsins og enn aðrir bíða þess óþreyjufullir að gata farið að gramsa í moldinni. Fljótlega rennur upp sá tími að hægt er að fara að sá. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið.
Yfirleitt er auðveldara en flesta grunar að rækta plöntur af fræi. Að vísu þarf að vanda þarf vel allan undirbúning, gæta þess að verkfæri, bakkar og pottar séu hreinir og að moldin sé laus við óæskilegar örverur. Allra best er að nota sáðmold, sem hægt er að kaupa í Blómavali, eða svokallaðar sáðtöflur sem eru sérstaklega ætlaðar fyrir fræ. Í töflunum er sáðmold sem lyftir sér þegar hún blotnar og fræin skjóta rótum í hana. Í moldinni eru öll næringarefni sem ungplönturnar þurfa og töflunum fylgir sá kostur að hægt er að planta moldarkögglinum í stærri pott án þess að hreyfa við plöntunni sjálfri.
Þegar sáð er í gamla bakka eða potta verður að þvo ílátin með heitu sápuvatni og hreinsa vel svo engin óhreinindi verði eftir og til að koma í veg fyrir rótarhálsrotnum hjá ungplöntunum. Rótarhálsrotnun stafar af sveppasýkingu sem lýsir sér í því að plönturnar verða svartar við rótarhálsinn og drepast.
- Vilmundur Hansen.
