Glæsileg stofuplanta með einstaklega fagurmynstruðum egg- eða lensulaga blöðum sem standa á löngum grönnum stönglum. Blöðin græn með rauðum æðum eða svörtum blettum.
Laufið eilítið lafandi á daginn en reisir sig upp á kvöldin eins og hendur við bæn og af þeim sökum kallast plantan „prayer plant“ eða bænablóm á ensku og Hollendingar kenna hana við boðorðin tíu.
Getur náð um 50 sentímetra hæð og verið nokkuð beið um sig. Blómin gul eða hvít en yfirleitt er plantan ræktuð vegna blaðfegurðarinnar.
Þolir ekki beina sól og þrífst best í hálfskugga og við venjulegan stofuhita. Moldin má vera gljúp og vökva skal tvisvar í viku á sumrin en minna á veturna og gott er að vökva með daufri áburðarlausn á þriggja vikna fresti og úða kringum plöntuna annað slagið.
Flauelsfjöður er upprunnin í skógarbotnum hitabeltis Mið- og Suður-Ameríku. Ættkvíslin Calathea, sem þýðir karfa og vísar til vaxtarlagsins, eins og hún kallast á latínu inniheldur fjölda tegunda og fjölmörg yrki eru í ræktun.
Plantan hefur verið lengi í ræktun.
Vilmundur Hansen

