Pallaleiðbeiningar — staðurinn undirbúinn

Ef gras er þar sem pallurinn á að vera, þarf að fjarlægja það og slétta undirlagið.

Byrjað er á því að reka niður hæla þar sem horn pallsins eiga að vera og strengja línu á milli þeirra til að ákveða svæðið. Þegar búið er að fjarlægja grasið eða slétta undirlagið þarf að ganga úr skugga um að jarðvegurinn sé láréttur, þannig að pallurinn standi á jafnsléttu. Valið er eitt hornið sem upphafshorn og fundið út með hallamáli lárétta línu að næsta horni. Línan sem strengd var á milli hælanna sett í rétta hæð og síðan koll af kolli þar til við erum komin hringinn. Þá ætti síðasta línan að vera í sömu hæð og sú sem byrjað var að strengja. Næst er strengd lína í kross á milli hælanna og þannig fundið út hvort miðjan sé ekki örugglega líka rétt.

Þegar búið er að slétta undirlagið er lagður jarðvegsdúkur yfir það til að hindra að illgresi eigi greiða leið upp í gegnum pallinn. 4-5 cm lag af sandi eða möl er sett ofan á dúkinn.

Ef fyrirsjáanlegt er að mikill raki sé á svæðinu gæti þurft að lyfta pallinum lítið eitt frá jörðu. Það er hægt að gera með því að grafa holur með 1,2 metra millibili allan hringinn, 15x15 cm. Dýptin fer eftir því hvort um sé að ræða frostfrítt efni undir. Ef um slíkt er að ræða nægir að hafa holurnar 15 til 20 cm djúpar, annars þarf að grafa 60 cm niður þannig að undirstaða pallsins fari ekki af stað í frosti. Því næst þarf að setja steypu eða forsteyptar undirstöður í holurnar og gæta þess að allar undistöðurnar séu í sömu hæð eins og lýst var hér að framan. Steypu er hægt að blanda á staðnum. Einfaldast er að fá tilbúna þurrefnablöndu í steypuna og blanda hana með vatni á staðnum. Þegar steypan er þurr skerum við út hæfilega stóran bút af tjörupappa og leggjum ofan á hana svo að bitarnir liggi ekki beint á steypunni. Ef við erum viss um að jarðvegurinn þar sem pallurinn á að koma sé þurr og/eða við vitum að hann hreyfist ekki í frosti, getum við sleppt þessum kafla og látið grindina hvíla á mölinni.

Pallurinn settur saman

Byrjað er á því að leggja ytri ramma pallsins á sinn stað, skrúfa úthringinn saman á hornunum með hæfilega löngum skrúfum og rétta hann af með því að finna 90° horn. Því næst eru bitarnir í innri grindina sagaðir í rétta lengd og settir á sinn stað. Ef við ætlum að klæða pallaefnið þvert á grindina nægir að hafa 55 cm á milli bita. En ef við ætlum að hafa pallaefnið á ská yfir pallinn verðum við að hafa 45 cm á milli bita, miðað við pallaefni 28x95 mm.

Þegar grindin er tilbúin getum við byrjað að klæða pallinn. Hægt er að negla klæðninguna niður eða nota þar til gerðar pallafestingar. En mælt er með því að skrúfa hana niður með ryðfríum skrúfum því þannig næst betri festa. Viðhald verður auðveldara og viðbætur seinna meir. Tvær skrúfur eru settar í hvern bita og ráðlagt er að hafa minnst 3 mm bil á milli borða bæði til að vatn eigi greiða leið niður og vegna þenslu. Gott er að leggja mát milli borðanna til að halda jöfnu bili.

Klæðningin er sjaldnast nægilega löng til að ná yfir pallinn og þarf þá að setja tvö eða fleiri borð saman. Borðið er sagað í þá lengd sem þarf til að það nái nákvæmlega inn á mitt þverbandið í grindinni þar sem samsetningin kemur, sandpappír rennt létt yfir endann á því til að fjarlægja flísar sem myndast við sögun og síðan er það skrúfað niður. Næsta borð er síðan fellt að því og skrúfað niður eftir að hafa verið sagað í rétta lengd. Samskeytum af þessu tagi er ávallt víxlað þannig að næsta samsetning komi á öðrum stað en sú þarnæsta í sömu línu og sú fyrsta. Þannig myndast fallegt mynstur.

Láttu teikna pallinn

Húsamiðjan hefur um áratugaskeið boðið upp á ráðgjöf og teikningu á sólpöllum. Hafðu samband við okkur og athugaðu hvenær laust er hjá sólpallahönnuði. Að fá t.d. þrívíddarteikningu af pallinum auðveldar allar ákvarðanir og verkið vinnst fljótt og vel. Mjög ódýrt er að láta skissa pallinn í Húsasmiðjunni og gengur kostnaðurinn við teikninguna upp í efniskostnaðinn þegar pallaefnið er keypt. Það margborgar sig því að láta teikna pallinn.

Smelltu hér til að fá nánari upplýsingar um sólpallaráðgjöf Húsasmiðjunnar

Efnislisti fyrir sólpall

1. Dregari: 45 x 145 mm, gagnvarin alhefluð fura. Boltaður
við sökkul eða vegg húss með múrboltum 10 x 120 HG.
2. Bitar: 45 x 95 mm gagnvarin alhefluð fura, millibil 0,6 m.
3. Undirstaða: steypt undirstaða.
4. Kantborð: 21 x 95 mm, gagnvarin alhefluð fura.
5. Klæðning: 28 x 95 mm, gagnvarin alhefluð fura, bil milli borða 5 mm, fest með ryðfríum A4 tréskrúfum, 4,5x60 TX UZ.
6. Samtengingar: galvaniseraðar járnfestingar,NKT - þakásankeri 210 B  fest með galvaniseruðum skrúfum 5,0 x 40 8 stk. í hvert járn.
7. Dregarar: 45x145 mm gagnvarin, alhefluð fura, millibil 1,8 - 2 metrar.

Afstaða sólar og skjólveggir

Gæta verður þess að planta gróðri á milli skjólveggs og þess svæðis sem nota á til útivistar. 

Þetta tryggir minni skugga og meira skjól. Velja þarf gróður af kostgæfni til þess að hann veiti skjól án þess að verða of hár.

Skuggi frá 1,8 metra skjólvegg þann 1. maí er um 3 metrar kl. 17:00 en hann lengist í um 6 metra kl. 19:00.

Skuggi þann 20. júní er orðinn 2 metrar kl. 17:00 en 8,5 metrar kl. 21:00 um kvöldið.

Það skiptir máli að sitja ekki of nálægt skjólvegg til þess að lenda ekki í skugganum. Gróður gefur auk þess meira skjól.

Mundu að bera strax á pallinn

  • Berðu pallaolíu á pallinn við fyrsta tækifæri.
  • Berðu viðarvörn á skjólveggi við fyrsta tækifæri.
  • Mikilvægt að bera á pall og veggi áður en mold/skítur festist í viðnum.