Allt sem þú þarft að vita um sandpappír

Bara það að nefna hugtakið að pússa vekur upp minningar hjá flestum sem hafa unnið við smíðar og þeir minnast ófárra erfiðra stunda við frágang á smíðahlutum.

Þó það að pússa sé ekki það skemmtilegasta í heimi, þá vita allir sem unnið hafa við smíðar að ef að vel er að verki staðið skilur það á milli þess að hlutir líti vel út og fagmenn hafi verið að verki — og þess að fólk vilji stilla hlutunum upp í dimmu horni að smíði lokinni.

Sandpappír á sér langa sögu, eða aftur til þess tíma þegar venjulegur sandur eða ryk var notað til að slípa yfirborð og fægja hluti áður en þeir voru lakkaðir. Á þessum tíma — löngu fyrir tíma þeirra slípiefna og sandpappírs sem við þekkjum í dag, svo ekki sé minnst á slípivélar — var þetta mikið erfiði.

Í dag hafa slípivélar að mestu tekið yfir erfiðið og erfiðasti hluti verksins er að ákveða hvaða gerð og grófleika sandpappírs á að nota og hvaða vélbúnaður hentar til verksins. Þegar þú hefur svarið við þessum spurningum kemur í ljós að það að pússa hluti í dag er ekki eins erfitt og þú gætir hafa haldið.

 

Almennt um sandpappír

Margar gerðir af sandpappír eru fáanlegar og margvíslegar gerðir af slípihúð hafa verið notaðar á sandpappír í gegnum tíðina. Meðal þeirra má nefna Flint, Garnet, Aluminium Oxide og Silicon Carbide.

FLINT er ódýrasta gerð og um leið sú gerð sem hefur minnsta endingu af öllum sandpappír. Hún er búin til úr muldu kvartsi og er oftast gráleit á litinn. Vegna þess að sandpappírinn er ódýr þá hentar hann vel til að fjarlægja þykk lög af málningu, bóni eða annarri yfirborðsmeðhöndlun, eða til að slípa gúmmíkennt yfirborð. Þegar slípiflöturinn fyllist af því efni sem er verið að slípa er örkinni einfaldlega fleygt og byrjað með nýja. Þar sem þessi gerð sandpappírs er ekki eins beitt og aðrar gerðir og getur skilið eftir kvartsryk grafið niður í yfirborð viðarins, sem gengur síðan í óheppilegt samband við yfirborðsmeðhöndlun með ákveðnum gerviefnum, þá er EKKI mælt með því að nota þessa gerð sandpappírs við lokameðhöndlun á yfirborði, enda er hún nánast horfin af markaði hér á landi.

ALUMINIUM OXIDE er slípefni sem gert er með því að hita álefni með rafgreiningu. Þessi gerð sandpappírs getur verið rauð, brún, grá eða svört og er með mjög hörðum kornum sem endast vel. Þess vegna er þessi tegund oftast valin í vélslípun og er greinilega sú gerð sem mest framboð er af á markaði.

GARNET er framúrskarandi náttúrulegt slípiefni og skilur eftir sig einstaklega mjúka áferð. Þess vegna nota atvinnumenn í húsgagnasmíði gjarnan þessa gerð til lokaslípunar. Þó þetta sé ekki tiltölulega hart efni er það þó sennilega það slípiefni sem er með hvassastar brúnir, með ögnum sem vilja brotna þegar slípað er. Þessi brot gefa sífellt nýjar og nýjar brúnir og því slípar pappírinn vel. Garnet sandpappír er nánast alltaf rauður að lit.

SILICON CARBIDE er með hörðustu kornunum og sá dýrasti. Þetta er gerviefni, búið til með því að hita kísil og kolefni og við það myndast kristallað efni sem er mjög hvasst og nánast jafn hart og demantur. Þessi sandpappír er oftast aðeins fáanlegur í fínni eða mjög fínni áferð. Þess vegna hentar þessi gerð ekki til að slípa ómeðhöndlaðan við og er frekar ætluð til þurr- eða blautslípunar á málningu, lakki og plastefnum. Svartur silicon carbide sandpappír er notaður bæði við blaut- og þurrslípun, en ljósgrár er notaður til þurrslípunar eingöngu.

Hvernig er grófleiki sandpappírs skilgreindur?

Þrjár aðferðir eru notaðar við merkingu á sandpappír: 

  • Með nafni, svo sem coarse (grófur), miðlungsfínn (medium fine) og svo framvegis.
  • Með grófleikanúmeri, svo sem 60, 80, 100 og svo framvegis.
  • Með einingum, svo sem 1/0, 4/0, 7/0 og svo framvegis (þessi aðferð er frekar lítið notuð).

Þó auðveldast sé að skilja nöfn nota framleiðendur þau á þann veg að það getur verið misvísandi. Einn framleiðandi gæti kallað 320 pappír mjög fínan þegar annar gæti nefnt hann extra fínan.

Venjulega er sandpappír bæði merktur með nafni og grófleikanúmeri. Grófleikanúmer eru frá 12 (extra gróft) upp í 1200 (extra fínt). Eininganúmerin eru frá 4-1/2 (extra gróft) upp í 10/0 (fínt).

Grófleikanúmerið á rætur að rekja til framleiðsluaðferðarinnar. Kornin eru síuð í gegnum sífellt þéttari og þéttari sigti og fjöldi gata í sigtinu ákveða grófleikanúmerið. Til dæmis hafa kornin á sandpappír með grófleikanúmerið 80 verið síuð í gegnum sigti með 80 götum á hverja tommu.

Eins og með mælieiningarnar, þá hefur verið töluverður mismunur í merkingum á sandpappír á milli Evrópu og Bandaríkjanna, sem getur þvælst fyrir okkur við lestur á smíðaleiðbeiningum. Ameríska kerfið notar tölurnar frá 12 (grófast) upp í 1200 (fínast) en það evrópska notar einnig sömu tölur, nema þar er P á undan tölunni, P12 upp í P1200. Bæði kerfin eru eins upp að kornastærð 220 og munar aðeins örfáum míkrón á kornastærð í hverjum flokki. 

Fyrir ofan 220 byrjar að draga í sundur með kerfunum. Evrópskur sandpappír P800 er til dæmis með kornastærð upp á 21,8 míkron, en sambærilegur amerískur sandpappír er 400 með kornastærð upp á 23,6 míkrón. Fínasti evrópski sandpappírinn er P1200 með kornastærð upp á 15,3 míkron, en fínasti ameríski pappírinn, 1200, er með helmingi minni kornastærð, upp á 6,5 míkron.

 

Opin eða lokuð slípihúð

Sandpappír er framleiddur með tveimur mismunandi tegundum af slípihúð.

Annars vegar með svonefndri opinni slípihúð, þar sem kornin þekja aðeins 50% til 70% af undirlaginu. Vegna þess að opnu svæðin á milli slípikornanna leyfa meira af ryki og útfellingum að falla í burtu þá hleðst minna upp í pappírinn og því hentar svona pappír betur í slípivélar eða til slípunar á mjúkum efnum.

Hins vegar með lokaðri húð og þéttu yfirborði af slípiögnum. Þetta þýðir að slípiflöturinn er í raun meiri, sem gefur hraðari slípun, en á hinn bóginn hleðst sandpappírinn hraðar. Þess vegna hentar lokaður pappír betur til handslípunar.

Handslípun eða vélslípun?

Svarið við þessu er nánast alltaf bæði. Að sjálfsögðu eru á þessu undantekningar. Ef þú ert að smíða eitthvað annað en fín húsgögn eða annað sem kallar á fínslípað yfirborð, þá dugar vélslípunin oftast ein og sér. Á hinn bóginn er gott að hafa það í huga að það er nánast ómögulegt að ná fram fínu, rispufríu yfirborði á húsgögnum nema með einhverri handslípun.

Við því hvaða gerð vélslípunar er best er ekkert einfalt svar, því hver gerð vélar er gerð fyrir ákveðna tegund slípunar.

Flokkun á grófleika sandpappírs

  • Með nafni, svo sem grófur (coarse), miðlungsfínn (medium fine) og svo framvegis.
  • Með grófleikanúmeri, svo sem 60, 80, 100 og svo framvegis.
  • Með einingum, svo sem 1/0, 4/0, 7/0 og svo framvegis.