Reglulegt viðhald á þaki er lykilatriði

Það fer alfarið eftir byggingarlagi hússins og hæð hvort húseigandinn geti sjálfur annast viðhald á þaki og þakrennum. Á hinn bóginn geta flestir húseigendur skoðað ástand þaksins og gengið úr skugga um hvort þörf sé á viðhaldi. 

Fyrsta skrefið er að skoða ástand þaksins. Meirihluti eldri húsa er með þakjárn úr galvanhúðuðu bárujárni sem hefur verið málað. Á slíkum þökum þarf að skoða yfirborðið vel, hvort málningin er farin að flagna, eða hreinlega eyðast þannig að byrjað er að skína í járnið í gegn.

Í slíkum tilfellum kemur eyðing málningarinnar fram sem tæring eða ryðlitur í lágbáru þar sem vatn getur legið. Einnig þarf að athuga vel hvort naglahausar séu byrjaðir að ganga upp, þannig að bil sé farið að myndast frá naglahausunum að yfirborði járnsins.

Ef allt er eðlilegt á að nægja að slá niður einstaka naglahaus, bursta yfir járnið með vírbursta, eða nota bárujárnssköfu og mála yfir.

Ef slit eða tæring er komin í ljós þarf að bursta slíka fleti vel með vírbursta, mála yfir fletina með ryðvarnarmálningu eða menju. Þið fáið upplýsingar um viðeigandi efni í málningardeildum Húsasmiðjunnar.

Sama á við um naglahausana. Þá þarf að bursta vel og mála með ryðvarnarmálningu eða menju. Skiptið um nagla ef þeir eru byrjaðir að tærast mikið. Þegar þessi grunnmálning hefur þornað er hægt að mála þakið á hefðbundinn hátt. 

Notkun á þakklæðningu úr alusink eða með innbrenndum lit hefur færst í aukana á síðari árum. Þessi þök þarfnast líka eftirlits og viðhalds. Þakklæðningu úr alsusink er vel hægt að mála og gilda leiðbeiningar um hefðbundið þakjárn um það.

Nýrri gerðir þakklæðningar eru festar niður með nöglum eða þakskrúfum sem eru með þéttihring undir naglahausunum. Gæta verður vel að því að naglahausinn og þéttingin hvíli vel á járninu, því ella getur lekið með gatinu og los á milli járns og naglahauss getur kallað fram tæringu með tímanum vegna hreyfingar á járninu sem þá nuddast við naglann.

Þegar þak lekur

  • Kannaðu ástand þaksins á hverju ári.
  • Leitaðu til fagmanna ef skipta þarf um þakefni eða endurnýja hluta þess.
  • Leka skal alltaf stöðva við fyrsta tækifæri.
  • Leka í þaki má stöðva tímabundið með sérstökum efnum sem fást í málningardeildum Húsasmiðjunnar.
  • Varanleg viðgerð vegna leka verður helst unnin með aðstoð fagmanna sem tryggja að frágangur sé fullnægjandi.

Alusink þakklæðning

  • Leitaðu til ráðgjafa Húsasmiðjunnar í næstu verslun.
  • Hægt er að velja um ótal útfærslur af þakklæðningu.
  • Alusink þakklæðning er sú algengasta nú til dags.
  • Alusink þakklæðningar er hægt að fá í ótal litum.
  • Alusink þakklæðingar þarfnast eftir sem áður eftirlits og viðhalds eins og öll þakefni þrátt fyrir að ending þeirra sé almennt mjög góð.