Svona leggur þú flísar á gólf

Byrjið á því að útvega nauðsynleg verkfæri (sjá í kassanum hér til hliðar).

Allar þessar vörur fáið þið í Húsasmiðjunni ásamt góðum ráðum. Ef um gólfflísar er að ræða, fáið þá leiðbeiningar um hvað er hentugast að nota hverju sinni.

Notið ekki veggflísar á gólf. Gólfflísar eru þykkari og ekki eins sleipar.

Mælið vandlega herbergið sem á að flísaleggja og athugið hvort það sé hornrétt.

Mælið stærð flísanna og reiknið út stærð flatarins sem skal flísaleggja. Bætið 7% við þá tölu til að gera ráð fyrir fúgum, þ.e.a.s. bilinu á milli flísanna.

Hreinsið allt rusl af gólfinu. Ef það eru steypuagnir á gólfinu, notið þá hamar til þess að brjóta þær af (munið hlífðargleraugun) og sópið gólfið vel á eftir. Gólfið skal vera þurrt og hreint. Grunnið gólfið með tilheyrandi grunni.

Þá er að hefjast handa

1. Mælið nú út miðju gólfsins og gerið kross yfir gólfið, t.d. með skotlínu. Leggið nokkrar flísar eftir línunni sem er miðja gólfsins í kross yfir gólfið til þess að athuga hvort þær stemmi við vegginn. Annars þarf að skera af síðustu flísunum, en þar sem þið mælduð út miðjuna verður jafn afskurður.

2. Smyrjið líminu á gólfið með tennta spaðanum þannig að það verði því sem næst þurrt á milli randanna. Veljið spaða miðað við stærð flísanna (6, 8, 10 mm rendur). Þið fáið ráðleggingar hjá sölumönnum um rétta stærð spaða. Notið plastkrossa á milli flísanna út til endanna svo að jafnt bil verði á milli flísanna. Þrýstið flísinni í límið. Ef límið vellur upp með flísinni er aðeins of mikið lím. Hreinsið það strax af og leggið næstu flís niður.

3. Setjið krossa á milli flísanna. Haldið svo áfram á sömu braut. Takið plastkrossana burt áður en límið harðnar. Ekki ganga á flísunum. Þegar búið er að leggja nokkrar flísar, leggið þá réttskeið, planka eða þvíumlíkt á flísarnar og bankið létt, t.d. með gúmmíhamri, til þess að þær verði allar í sömu hæð. Leggið svo allar flísarnar á gólfið.

4. Þegar komið er út til veggja þarf væntanlega að skera af flísunum. Leggið eina flís beint ofan á þá sem næst er veggnum og aðra ofan á hana og leggið þá flís að veggnum. Strikið línu aftan við efstu flísina á þá neðri og skerið eftir línunni. Þá ætti sá bútur að passa í bilið við vegginn. Einnig er hægt að mæla bilið að veggnum með tommustokk, merkja inn á flísina og skera síðan.

Að skera í kringum rör o.fl.

1. Stundum þarf að skera úr flísum í kringum rör sem standa upp úr gólfi sem á að flísaleggja. Þegar flísalögnin er komin svo langt að næsta flís lendir á rörinu, þá takið þið flís og leggið ofan á röðina sem er komin, en til hliðar við rörið. Merkið með merkiblýanti (eða tússpenna) hvar hvor brún á rörinu lendir á flísinni.

2. Staðsetjið flísina síðan í beinu framhaldi af þeim sem búið er að leggja, rennið flísinni að rörinu og merkið aftur hvar hægri og vinstri brún rörsins lenda á flísinni. Dragið línur með vinkli yfir flísina og þá á að myndast ferningur þar sem rörið lendir á flísinni. Dragið hring innan í ferninginn (best er að hafa rör af sama sverleika til að draga í kringum). Því næst þarf að saga flísina í tvennt þannig að skurðurinn komi nákvæmlega í miðjan hringinn. Sumum finnst þægilegra að gera mát úr pappír eða pappa og máta það á staðnum áður en merkt er inn á flísina og hún söguð til).

3. Hægt er að nota sérstaka flísasög eða stingsög með réttu blaði til að saga flísar. Fyrst er flísin söguð í tvennt og síðan hálfhringurinn sem fellur að rörinu og hann fjarlægður.

4. Mátið flísarhelmingana á staðnum og athugið hvort helmingarnir falli ekki vel saman og hvort nægilega hafi verið tekið úr fyrir rörinu. Þegar gengið hefur verið úr skugga um þetta má bera lím á flísarhelmingana og setja þá á sinn stað. Ef verkið hefur heppnast sem skyldi á skurðarlínan í flísinni að vera nánast ósýnileg en ójöfnur í kringum rörið hverfa þegar fúgað verður.

 

Fúgur, hvernig geri ég?

Þegar búið er að flísaleggja þarf límið að fá að þorna áður en fúgað er. Hve lengi ráðlagt er að bíða frá flísalögn að fúgun má sjá í leiðbeiningum frá framleiðanda, eða fá upplýsingar um hjá sölumönnum.

1. Blandið nú vatni og fúgudufti saman þannig að úr verði þykkur grautur. Berið fúguna á með gúmmíspaða. Notið svamp til þess að nudda fúgunni niður á milli flísanna og strjúkið yfir flísarnar. Til þess að móta fúguna í lokin, notið fingurinn til að slétta fúguröndina. Notið þá Latex eða Nitril hanska.

2. Látið fúgurnar harðna í ákveðinn tíma. Sjá nánar leiðbeiningar á umbúðum eða fáið upplýsingar hjá sölumönnum.

3. Þrífið flísarnar með þar til gerðum vökva eftir ákveðinn tíma. Sjá nánar leiðbeiningar á umbúðum eða fáið upplýsingar hjá sölumönnum.

Verkfæri sem þú þarft

  • Málband
  • Réttskeið
  • Tenntur límspaði 
  • Svampur
  • Tuska
  • Merkiblýantur fyrir flísar eða tússpenni
  • Flísaskeri
  • Flísasög
  • Flísaþjöl
  • Vinkill
  • Gúmmíhamar
  • Gúmmíspaði fyrir fúgu
  • Hamar (ef þarf)
  • Hlífðargleraugu (ef þarf)
  • Plastfata eða ílát til að hræra upp fúgu

Efni sem þú þarft

  • Flísar
  • Flísalím
  • Plastklossar
  • Hreinsiefni fyrir lím
  • Fúguefni